Helgi minn. Ég er svo hrædd um þig. Komdu nú heim. Ég lofa að vera ekkert að nuða í þér og ég skal lofa að reykja bara úti á svölum. Ég veit ekki hvað ég á að segja. Ég veit að ég var sein að ná í þig og ég hef ekkert verið í sambandi við þig síðustu vikurnar. Ég er bara búin að vera mjög upptekin í mínu. En íbúðin er svo tómleg núna þegar þú átt að vera kominn. Sokkarnir þínir eiga að liggja við rúmgaflinn og ég á að verða svolítið fúl yfir því en taka þá upp af því að ég vil ekki að þú haldir að ég sé pirruð, og mjólkurfernan ætti að vera tóm í ísskápnum eftir þig en hún er full, ekki búið að opna hana, enginn búinn að drekka beint af fernunni, engin rollingsstóns í spilaranum. Bara þögn. ægileg þögn.
Ég klippti mig meira að segja áðan. Fer mér mjög vel. Soldið styttra en ég ætlaði og ég vona að þú verðir ekki reiður en þótt ég segi sjálf frá þá fer þetta mér bara mjög vel. Búin að hræra í bananabrauð og taka til sloppinn þinn með mýkingarefni í og allt tilbúið til að við getum verið glöð saman í þessa daga sem þú átt í landi.
Þín Nína
Engin ummæli:
Skrifa ummæli